Naumur sigur Keflavík á ÍA

Steinar Þorsteinsson og Ingimundur Aron Guðnason eigast við.
Steinar Þorsteinsson og Ingimundur Aron Guðnason eigast við. Ljósmynd/Gísli J. Guðmundsson/Skagafréttir

Keflvíkingum gekk illa að nýta færin sín þegar þeir fengu Skagamenn í heimsókn suður með sjó í dag þegar neðri hluti efstu deildar karla í fótbolta, Bestu deildinni, hóf sína vegferð.  Misstu tvívegis niður forskot en tóku sig þá tökum og unnu að lokum 3:2.

Keflvíkingar tóku fljótlega að mestu völdin og liprir í sóknum sínum tókst þeim að hrekja vörn Skagamanna aftarlega en það vantaði aðeins upp að dauðafærin, eða mörkin, létu sjá sig.  Þó hafði Joey Gibbs átt skot sem var varið í stöng og Patrik Johannesen þrumuskot rétt yfir. 

Færin duga þó skammt því einni sókn barst boltinn út á hægri kant þar sem Benedikt Warén spilaði honum upp að vítateigsboganum, skaut síðan niður í vinstra hornið en boltinn snerti varnarmann Keflavíkinga á leiðinni.   

Keflvíkingar voru fljótir að ná sér og hófu fljótlega að herða á sóknum sínum, sem loks skiluðu marki á 28. mínútu þegar Adam Ægir Pálsson gaf fyrir frá hægri kanti, Sindri Snær Magnússon skallaði boltann aftur fyrir sig inn að markteigslínu þar sem Kian Williams kom á fullri ferð og þrumaði í hægra hornið.

Skagamenn voru eitthvað farnir að komast inní leikinn þó færin væru ekki mörg en þegar þeir komu framar opnaðist fyrir eldsnöggar sóknir heimamanna og úr einni slíkri á 45. mínútu skilaði ein marki.  Þá fékk Patrik Johannesen frábæra sendingu í gegnum vörn Skagamanna og geystist að marki ÍA, var að leika á Árna Marinó í markinu, sem greip þá til Færeyingsins sem féll við og fékk fyrir vikið víti en Árni Marinó gult spjald.  Patrik tók sjálfur vítið og þrumaði upp í mitt markið og kom Keflavík aftur í forystu, 2:1.

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleik af krafti en fyrsta færi síðari hálfleiks var þó Skagamann þegar Viktor Jónsson skaut laust framhjá auðu markinu eftir klúður í vörn Keflvíkinga.  Eiginlega auðveldara að hitta markið en ekki.  Í staðinn fyrir að svekkja sig fóru Skagamenn að sækja harðar.   Það skilaði líka marki þegar varnarmaðurinn Johannes Björn Vall fékk boltann á vinstri kant í snöggri sókn og rétt utan við markteigshornið þrumaði hann undir Árna Marinó í markinu á 54. mínútu.  Aftur jafnt, 2:2.

Keflvíkingar voru ekkert hættir að sækja og úr einni sókninni fengu þeir aukaspyrnu á vítateigsboganum, stilltu sér upp og Joey Gibbs þrumaði í vinstra hornið.  Flott skot og erfitt að verja þarna alveg út við stöng.   Það sem eftir lifði leiks var leikurinn frekar jafn, Keflvíkingar héldu sjó að gættu þess að taka sem minnsta áhættu á meðan Skagamenn reyndu að sækja en sóttist illa því vörn heimamanna var á verði.  Það bíður alltaf hættunni heim að fara halda fengnum hlut en Keflvíkingar sluppu fyrir horn.

Úrslitin þýða að Keflvíkingar eru nú komnir með 31 stig og mæta í næsta leik ÍBV í Eyjum.  Skagamenn fengu ekkert fyrir sinn snúð, halda sínum 15 stigum og fá Fram í heimsókn á Skagann í næsta leik.

Keflavík 3:2 ÍA opna loka
90. mín. Keflavík fær hornspyrnu Spila úr því.
mbl.is