„Við erum með gulrót fyrir framan okkur sem menn vilja ná“

Hallgrímur Jónasson þjálfari KA.
Hallgrímur Jónasson þjálfari KA. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Hallgrímur Jónasson er nú aðalþjálfari KA eftir að Arnar Grétarsson vék úr brúnni. KA var í eldlínunni í dag þegar fyrsti leikurinn í aukakeppni Bestu-deildarinnar um Íslandsmeistaratitilinn fór fram á Greifavellinum á Akureyri.

KA vann þá KR 1:0 í jöfnum leik þar sem lítið var um færi. Líklega var fátt annað en sigur sem var á boðstólnum fyrir Hallgrím og KA-menn og var hann því sáttur í leikslok. 

„Það sem ég vildi sjá hjá mínu liði var að það sæist að við hefðum meira að spila fyrir en þeir og að við gætum unnið KR með góðri frammistöðu. Við vorum búnir að tapa gegn þeim og gera jafntefli þannig að nú vildum við sigur en okkur fannst við eiga meira skilið út úr hinum tveimur leikjunum. Það tókst sem betur fer í dag en mér fannst KR-ingarnir góðir í þessum leik og þeir eru með mjög sterkt lið.“ 

Margir KA-menn vildu einmitt annan séns gegn KR á heimavelli eftir tapið hér fyrr í sumar þar sem þið hreinlega óðuð í færum. En nú eru það næstu skref. Það eru allir að tala um þessi Evrópusæti sem eru í boði. Þið eruð komnir ansi langt með að tryggja ykkur sæti í Evrópukeppni en það eru fjórir leikir eftir. 

„Stefnan núna er að enda fyrir ofan Víking. Þegar svo að því kemur að einn eða tveir leikir eru eftir þá væri gaman að eiga möguleika á einhverju ennþá skemmtilegra. Við erum bara á því að við ætlum að enda fyrir ofan Víking. Liðin voru með jafn mörg stig fyrir þennan endasprett og nú erum við komnir á undan þeim og þeir þurfa að elta.“ 

Nú er komið fram í október og fyrir ári síðan var allt á kafi í snjó hér á Akureyri. Veðrið var með okkur í dag en það eru tveir heimaleikir eftir og leikur eftir viku gegn Breiðabliki. 

„Veðrið í dag var frábært en ég held samt að ef það verði vont veður á leikdegi þá muni það pirra hin liðin meira en okkur. Við græðum bara á því ef það kemur leiðinlegt októberveður.“ 

Það verður væntanlega æft stíft hvernig sem veðráttan verður. 

„Það er kannski bara eins og við eigum að venjast. Við höfum alltaf verið að æfa úti á veturna í alls konar veðrum og það mun enginn fara að kvarta neitt. Við erum hérna með gulrót fyrir framan okkur sem menn vilja ná. Við viljum setja met og gera vel í KA og það er það sem drífur menn áfram. Miðað við hvernig menn voru að leggja sig fram í dag þá sýnist mér að ég þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur.“ 

Það er skemmtilegt fyrir þig að byrja á þessari fimm leikja törn. 

„Það er það. Þótt ég hafi verið að stýra liðinu þessa fimm, sex leiki í sumar þá er þetta aðeins öðruvísi þegar allt er komið yfir á mig. Þjálfarateymið er öflugt og það hefur verið mjög duglegt í vikunni við undirbúning. Ég er gríðarlega ánægður með það hvernig menn tóku í þetta og brugðust við. Það er æðislegt fyrir okkur alla að hafa unnið fyrsta leikinn og það gefur öllum smá púst og smá ró.“ 

Ég verð að spyrja þig fyrst við erum með pabba þinn hérna, þú varst einmitt að spjalla við hann þegar ég truflaði ykkur. Hann er margreyndur þjálfari og mjög reynslumikill hvað varðar allt í sambandi við fótboltann. Það hlýtur að vera gott að hafa einn svona tiltækan til að ræða við og leita ráða hjá. 

„Já, það er bara þannig og hann hefur verið þjálfari frá því að ég byrjaði í fótbolta og maður er búinn að hlusta á margt og hefur tekið margt með sér. Auðvitað hefur pabbi haft mikil áhrif á hvaða tilgang ég hef í þessari íþrótt. Maður komst ekki upp með neitt væl þegar maður var krakki.

Þetta snérist um að leggja sig fram og gera vel. Það var mikið rætt um boltann á heimilinu og menn voru með alls konar skoðanir. Maður fékk strax áhuga á þessu þá. Maður getur því leitað til hans og fengið að heyra hvað honum finnst eftir leiki,“ sagði Hallgrímur að lokum á meðan faðir hans, Jónas Hallgrímsson, spókaði sig á glæsilegum KA-vellinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert