„Við munum sýna þessu fulla virðingu“ 

Rúnar Kristinsson á hliðarlínunni í dag.
Rúnar Kristinsson á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Við erum ekkert hérna til að leika okkur. Við viljum lyfta okkur upp töfluna og gera vel í þeim leikjum sem eftir eru. Við áttum góða frammistöðu gegn KA í dag og þrýstum þeim til baka í stórum hlutum fyrri hálfleiks. Því miður þá sköpuðum við lítið af færum þrátt fyrir að vera mikið með boltann. Við nánast sköpuðum ekki neitt og KA-mönnum líður bara vel að vera minna með boltann, verjast djúpt og bíða færis, enda eru þeir stórhættulegir fram á við.“ 

Þetta sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR í Bestu-deild karla eftir 1:0-tap gegn KA. 

„Mér fannst fyrri hálfleikurinn okkar að mestu en þeir fengu samt hættulegri skotfæri. Svo kom þetta mark í byrjun seinni hálfleiks og þá leið þeim enn betur og eftir það gáfu þeir ekki mörg færi á sér. Þetta opnaðist svo aðeins í restina og þá hefði KA allt eins getað bætt við. Heilt yfir er ég samt ánægður með framlag leikmanna. Við hlupum mikið og pressuðum KA mjög vel. Þeir voru í mesta basli í fyrri hálfleik að koma boltanum út frá vörninni sinni. Síðari hálfleikurinn var líka fínn hjá okkur en eins og ég segi þá sköpuðum við engin færi.“ 

Þið fenguð samt eitt dauðafæri fljótlega eftir mark KA og þar hefði átt að koma jöfnunarmark. 

„Já, Siggi er einn í gegn á móti markmanni. Hann er nú vanur því að klára þessi færi en Jajalo gerði vel, stóð lengi og tók þetta skot. Ég hefði verið mun sáttari með eitt stig heldur en ekkert. Ég er samt ánægður með leikmennina mína og þeir þurfa að gera þetta áfram. Það eru fjórir leikir eftir og við viljum bara standa okkur. Við viljum ekki gefast upp og hætta.“ 

Nú er staðan einmitt þannig hjá ykkur að þið eruð að keppast um sæti 4-6 og það væri alveg hægt að vera með einhverja tilraunastarfsemi í lokaleikjunum. Mér heyrist samt að markið sé sett á að komast í 4. sætið.  

„Það er útséð núna með efstu þrjú sætin og þá er bara spurningin hvort okkur takist að ná í 4. sætið. Það verður okkar markmið núna. Það mun núna koma í ljós hverjir vilja vera með okkur áfram og hverjir eru tilbúnir til að sýna þjálfarateyminu og félaginu hverjir vilja spila fyrir KR og vera í byrjunarliði á næsta ári. Sú vinna gæti byrjað núna, að tikka í box. Við viljum fá menn upp á tærnar og láta þá halda áfram að vinna vinnuna sína. Ég held að við verðum að bera virðingu fyrir þeim liðum sem eru að berjast um titilinn og getum ekki verið að setja 2. flokkinn til leiks eða gera stórar breytingar. Það væri ósanngjarnt þeim liðum sem eru að berjast um toppsætin, að mæta með lélegt lið í einn leik en gott lið í næsta. Við munum sýna þessu fulla virðingu en auðvitað getur maður gefið einhverjum séns á að spila núna, sem hafa spilað minna í sumar. Það verð samt engar stórar breytingar á milli leikja“ sagði Rúnar að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert