Andri spilar tímamótaleik í kvöld

Andri Rafn Yeoman í baráttunni við Ísak Andra Sigurgeirsson í …
Andri Rafn Yeoman í baráttunni við Ísak Andra Sigurgeirsson í kvöld í sínum 400. leik fyrir Breiðablik. mbl.is/Kristinn Magnússon

Andri Rafn Yeoman komst í kvöld í fámennan hóp íslenskra knattspyrnumanna sem hafa leikið 400 mótsleiki fyrir eitt og sama félagið þegar hóf leik með Breiðabliki gegn Stjörnunni í Bestu deild karla á Kópavogsvelli.

Andri hefur leikið með meistaraflokki Breiðabliks, síns uppeldisfélags, frá 17 ára aldri, en hann kom inn í liðið á miðju sumri 2009 og hefur spilað með Blikunum óslitið síðan.

Á síðustu árum hafa leikjamet hans fyrir félagið fallið, hann varð fyrir nokkru síðan leikjahæstur í sögu félagsins í efstu deild og er enn sá eini sem hefur spilað yfir 200 leiki með Breiðabliki í deildinni. Hann hefur nú spilað 255 leiki í deildinni og er aðeins fimmtándi leikmaðurinn í sögu Íslandsmótsins sem hefur náð þeim leikjafjölda.

Til viðbótar hefur Andri spilað 58 leiki fyrir Breiðablik í deildabikarnum, 33 leiki í Fótbolta.net mótinu, 30 leiki í bikarkeppninni og 24 Evrópuleiki.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem mbl.is hefur er Andri aðeins fjórði íslenski knattspyrnumaðurinn sem nær að spila 400 mótsleiki fyrir eitt félag. Hinir eru Þormóður Egilsson úr KR, Gunnar Ingi Valgeirsson úr Sindra á Hornafirði og Halldór Smári Sigurðsson sem á dögunum náði þessum áfanga fyrir Víking í Reykjavík. Andri er yngstur af þeim til að ná 400 leikjum.

mbl.is
Loka