Erum keppnismenn og gerum okkar besta

Sindri Þór Ingimundarson bjargar á línu í leiknum í kvöld.m
Sindri Þór Ingimundarson bjargar á línu í leiknum í kvöld.m Kristinn Magnússon

„Við förum í alla leiki til að vinna,“ sagði svekktur Ágúst Gylfason, þjálfari Stjörnunnar eftir 0:3 tap gegn Breiðabliki í 23. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld.

„Blikarnir voru bara betri en við í dag. Þrátt fyrir það byrjuðum við vel og áttum að komast yfir 1:0. En þeir snúa vörn í sókn og skora á okkur og þá fannst mér þeir hafa meiri tök á leiknum. Svo komum við með ágætan kraft inn í seinni og fáum mark á okkur úr föstu leikatriði og svo erum við að sækja í lokin og fáum á okkur mark úr skyndisókn.“

Stjarnan er enn í sjötta sæti deildarinnar og getur ekki náð Evrópusæti. Markmið tímabilsins er nú að vinna sem flesta leiki sem eftir eru og byggja fyrir næsta tímabil.

„Við förum í alla leiki og allar æfingar til að vinna. Við erum keppnismenn og gerðum það í dag, við gerðum okkar besta. Nú eru fjórir leikir eftir og nú er bara að vinna flesta leiki af þessum fjórum og að sjálfsögðu undirbúa fyrir næsta ár. Við getum byggt á þessum ungu strákum sem við erum með. Við sáum það í dag að það komu nokkrir ungir leikmenn inn á í seinni hálfleiknum og framtíðin er björt í Garðabænum. 

mbl.is