Jasmín inn í stað Elínar

Jasmín Erla Ingadóttir lék frábærlega fyrir Stjörnuna á tímabilinu.
Jasmín Erla Ingadóttir lék frábærlega fyrir Stjörnuna á tímabilinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jasmín Erla Ingadóttir, markahæsti leikmaður Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á nýafstöðnu tímabili, hefur verið kölluð inn í A-landsliðið fyrir umspil um laust sæti á HM 2023 í næstu viku.

Kemur Jasmín Erla, sem skoraði 11 mörk í 18 leikjum fyrir Stjörnuna í sumar, inn í leikmannahópinn fyrir Elínu Mettu Jensen, sem tilkynnti í gær að hún væri búin að leggja skóna á hilluna.

Elín Metta var valin í upphaflega hópinn en hefur ákveðið að láta staðar numið þegar í stað og tekur því ekki þátt í landsliðsverkefninu mikilvæga sem fram undan er.

Ísland mætir annað hvort Belgíu eða Portúgal ytra þann 9. október næstkomandi, en mótherjinn kemur í ljós annað kvöld þegar Belgía og Portúgal mætast.

Jasmín Erla, sem er 24 ára gömul og leikur sem sóknartengiliður eða sóknarmaður, hefur ekki leikið A-landsleik en á að baki 23 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands, þar sem hún skoraði tvö mörk.

Hún hefur skorað 28 mörk í 110 leikjum með Stjörnunni, FH og Fylki í efstu deild hér á landi.

mbl.is