Brynjar tekinn við Ólafsvíkingum

Guðjón Þórðarson og Brynjar Kristmundsson á hliðarlínunni í sumar.
Guðjón Þórðarson og Brynjar Kristmundsson á hliðarlínunni í sumar. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Stjórn knattspyrnudeildar Víkings úr Ólafsvík hefur tilkynnt að Brynjar Kristmundsson hefur verið ráðinn nýr þjálfari karlaliðs félagsins. Samningur Brynjars er til tveggja ára.

Undanfarin þrjú tímabil hefur Brynjar starfað sem aðstoðarþjálfari karlaliðsins og tekur við starfi aðalþjálfara af Guðjóni Þórðarsyni.

„Var hann fyrsti kostur félagsins þegar kom að því að ráða nýjan þjálfara og því mikil ánægja með ráðninguna.

Við bjóðum Brynjar velkominn til leiks í nýju starfi og væntum mikils af samstarfinu,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá knattspyrnudeild Víkings.

„Starfið leggst mjög vel í mig. Félagið hefur verið risastór partur af mínu lífi og er ég virkilega stoltur að vera kominn í þetta starf,” sagði Brynjar við undirskriftina.

Bætti hann við að hann hafi sótt mikla reynslu hjá forvera sínum Guðjóni.

„Ég hef fengið frábæran skóla undanfarin ár og að hafa starfað með manni eins og Guðjóni hefur verið mjög dýrmæt reynsla fyrir mig.”

Brynjar, sem er þrítugur, er heimamaður og lék sína fyrstu meistaraflokksleiki með Víkingi árið 2008, þá aðeins 16 ára gamall.

Auk þess að spila með Víkingi lék hann einnig með Val, Fram, Gróttu, Þrótti Vogum og nú síðast Reyni Hellissandi. Alls urðu meistaraflokksleikirnir 267 í deild og bikar.

Víkingur leikur í 2. deild, þriðju efstu deild hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert