FH áfram í fallsæti eftir tap í Eyjum

Eiður Aron Sigurbjörnsson og Telmo Castanheira fagna sigurmarki Eiðs en …
Eiður Aron Sigurbjörnsson og Telmo Castanheira fagna sigurmarki Eiðs en Telmo skoraði fyrra markið. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV tók á móti FH í fyrstu umferð neðri úrslitakeppni Bestu deildar karla á Hásteinsvelli í dag. Leikurinn endaði með 2-1 sigri heimamanna.

Upphaflega átti leikurinn að fara fram síðustu helgi en vegna þátttöku FH í úrslitaleik Mjólkurbikars karla var honum frestað til dagsins í dag.

Það blés ágætlega á leikmenn liðanna í dag en haustið er farið að bíta suður með sjó. Það voru því ekki gæði á boltann sem spiluðu meginhlutverkið í dag, heldur barátta og beinskeytni.

Fyrir leikinn voru Eyjamenn í níunda sæti með 20 stig en FH í því ellefta með stigi minna. Það voru því dýrmæt stigin fyrir bæði lið, sem voru í boði í Vestmannaeyjum í dag.

ÍBV byrjuðu leikinn mun betur og sóttu nánast látlaust fyrstu 15-20 mínúturnar. Það skilaði sér í fyrsta marki leiksins á 8. mínútu, en það skoraði Telmo Castanheira með gríðarlega fallegu langskoti. Guðjón Orri átti þá langt útspark upp vinstri kantinn á Arnar Breka.

Hann gaf boltann á Atla Hrafn sem hrasaði um boltann og virtist reka handleginn í hann. Pétur dæmdi hinsvegar ekkert og Atli Hrafn kom boltanum á Telmo með fyrrgreindum afleiðingum. Verðskuldað 1:0 fyrir heimamönnum í ÍBV.

Á 34. mínútu svöruðu FH-ingar fyrir sig. Þeir uppskáru hornspyrnu eftir að hafa komið sér betur miklu betur inn í leikinn. Spyrnuna tók Kristinn Freyr og smellhitti kollinn á Ólafi Guðmundssyni, sem stangaði hann listavel í netið framhjá Guðjóni Orra af stuttu færi. Staðan orðin 1:1 og þannig var hún þegar liðin gengu til hlés.

Telmo Castanheira fagnar fyrsta marki leiksins.
Telmo Castanheira fagnar fyrsta marki leiksins. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

FH-ingar byrjuðu síðari hálfleik betur en þann fyrri og Eyjamenn áttu erfitt með að sækja gegn sterkum mótvindi. Það voru þó heimamenn sem komust yfir eftir rétt tæplega klukkustunda leik.

Arnar Breki kom sér þá upp kantinn með harðfylgi og uppskar aukaspyrnu nálægt endalínunni. Ekki kom mikið út úr aukaspyrnunni sjálfri en út frá henni kom fyrirgjöf frá Felix sem FH-ingar sáu þó við. Þeim mistókst hinsvegar að hreinsa boltann frá og boltinn lak út til Eiðs Arons sem þrumaði honum í markið hjá FH-ingum. 2-1 fyrir ÍBV þegar rétt rúmlega hálftími var eftir.

Það sem eftir lifði leiks þyngdu gestirnir sókn sína hægt og rólega. Undir lok leiksins lágu FH-ingar verulega á heimamönnum og voru nokkrum sinnum mjög nálægt því að koma sér í dauðfæri til að jafna leikinn. Heimamenn vörðust hinsvegar hetjulega og héldu forystunni fram að lokaflautinu.

Gríðarlega dýrmæt stig fyrir ÍBV sem slítur sig aðeins frá fallsvæðinu og eiga nú fjögurra stiga forskot á FH sem situr í 9. sæti. Gestirnir geta hinsvegar komið sér úr fallsæti næstu helgi þegar þeir mæta Leikni, en FH eru aðeins einu stigi á eftir Breiðhyltingum.

ÍBV 2:1 FH opna loka
90. mín. FH fær hornspyrnu Það liggur rosalega á heimamönnum
mbl.is