Hvað gera bikarmeistararnir gegn Val?

Aron Jóhannsson og Júlíus Magnússon eigast við í leik liðanna …
Aron Jóhannsson og Júlíus Magnússon eigast við í leik liðanna í Bestu deildinni fyrr í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýkrýndir bikarmeistarar Víkings úr Reykjavík fá Val í heimsókn í efri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu á Víkingsvöllinn í kvöld.

Víkingur, sem einnig er ríkjandi Íslandsmeistari, vann bikarinn í þriðja skiptið í röð á laugardag og getur með sigri gert út um möguleika Vals á að vinna sér inn Evrópusæti á næsta tímabili.

Breiðablik er í frábærri stöðu á toppi deildarinnar með 54 stig og þar á eftir koma KA með 46 stig og Víkingur með 43.

Valur er í fjórða sæti með 32 stig, 11 stigum á eftir Víkingi og dugir ekkert annað en sigur ætli liðið sér að freista þess að vinna sér inn Evrópusæti.

Víkingur tryggði sér Evrópusæti með bikarsigrinum um helgina, Breiðablik er sömuleiðis búið að tryggja sér Evrópusæti og KA er í afar vænlegri stöðu í baráttunni um þriðja Evrópusætið enda 14 stigum fyrir ofan Val.

Valur þyrfti raunar að vinna alla fimm leiki sína sem eftir eru og treysta á að KA tapi að minnsta kosti þremur og geri eitt jafntefli í leikjunum fjórum sem Akureyrar-liðið á eftir á tímabilinu.

í hefðbundinni deildarkeppni Bestu deildarinnar vann Víkingur fyrri leikinn gegn Val á Hlíðarenda, 3:1, og liðin skildu svo jöfn í Víkinni, 2:2.

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19.15 og fer fram á Víkingsvelli.

Gífurlega mikilvægur leikur í Eyjum

Annar leikur fer fram í dag en það er fallslagur ÍBV og FH í neðri hluta Bestu deildarinnar sem fer fram á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum.

Aðeins eitt stig skilur liðin að þar sem FH er í næstneðsta sæti með 19 stig og ÍBV tveimur sætum ofar með 20 stig.

Því er um sannkallaðan sex stiga leik að ræða.

Í deildinni unnu liðin sinn hvorn leikinn. FH vann 2:0-sigur í Kaplakrika og ÍBV vann öruggan 4:1-sigur í Vestmannaeyjum.

Leikurinn í dag hefst á nokkuð óvenjulegum tíma, klukkan 15.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert