Ótrúleg endurkoma í Víkinni

Danijel Djuric skorar sigurmarkið í kvöld.
Danijel Djuric skorar sigurmarkið í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Víkingur bar sigurorð af Val á Víkingsvelli, 3:2, í síðasta leik fyrstu umferðar úrslitakeppni efri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Víkingar byrjuðu leikinn ágætlega og áttu fyrstu færi leiksins en Valur komst jafnt og þétt inn í leikinn. Það var jafnræði með liðunum þegar fyrsta markið kom á 29. mínútu leiksins. Aron Jóhannsson átti þá stutta sendingu á Heiðar Ægisson sem kom í hlaupið upp að endamörkum hægra megin og sendi lágan bolta inn í teiginn. Jesper Juelsgård kom á móti boltanum vinstra megin í teignum og stýrði honum listavel í nærhornið með hægri fætinum, 0:1.

Þremur mínútum var bætt við venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik og það var á síðustu mínútu fyrri hálfleiksins sem Sigurður Egill Lárusson vann boltann af Oliver Ekroth inni í vítateig Víkinga, lagði hann á Birki Heimisson sem setti hann á milli fóta Júlíusar Magnússonar og í fjærhornið svo Ingvar kom engum vörnum við í marki Víkings, 0:2. Örfáum andartökum síðar var flautað til leikhlés.

Arnar Gunnlaugsson gerði fjórfalda skiptingu eftir um klukkustundar leik og skiptingarnar breyttu algjörlega gangi leiksins. Á 70. mínútu áttu Víkingar góða sókn. Boltinn var færður upp vinstri vænginn og þaðan á Pablo Punyed fyrir framan vítateiginn, Pablo lagði boltann á varamanninn Danijel Dejan Djuric sem kláraði með góðu skoti undir Frederik Schram í marki Vals og í fjærhornið, 1:2.

Á 84. mínútu áttu heimamenn aðra frábæra sókn en eftir gott spil upp völlinn hægra megin lagði Erlingur Agnarsson boltann á varamanninn, Arnór Borg Guðjohnsen, sem kom með fastan bolta inn á markteiginn. Þangað var Nikolaj Hansen mættur og náði að pota boltanum fram hjá Frederik áður en Heiðar Ægisson náði til hans, 2:2.

Tveimur mínútum síðar átti varamaðurinn, Viktor Örlygur Andrason, góða sendingu út til hægri á Danijel Dejan, sem labbaði fram hjá Heiðari Ægissyni og renndi honum milli fóta Hólmars Arnar Eyjólfssonar og í fjærhornið, 3:2. Ótrúleg endurkoma Víkinga staðreynd á heimavelli hamingjunnar.

Með sigrinum kemst Víkingur aftur upp í annað sæti efri hlutans á markatölu á undan KA en KA-menn geta einnig fagnað í kvöld því nú er ljóst að liðið verður í Evrópukeppni á næsta keppnistímabili þvíu ekkert lið getur náð liðinu að stigum. Valur er sem fyrr í fjórða sæti efri hlutans stigi á undan KR.

Víkingar fagna vel í kvöld eftir magnaða endurkomu.
Víkingar fagna vel í kvöld eftir magnaða endurkomu. Ljósmynd/Kristinn Steinn
Víkingur R. 3:2 Valur opna loka
90. mín. Halldór Smári Sigurðsson (Víkingur R.) fær gult spjald
mbl.is