„Tökum þetta dag frá degi“

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu undirbýr sig nú fyrir gífurlega mikilvægan leik í næstu viku gegn annað hvort Portúgal eða Belgíu ytra í umspili um laust sæti á HM 2023.

Í morgun var Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari tekinn tali af KSÍ TV í Algarve í Portúgal, þar sem liðið æfir um þessar mundir. Spurður út í stöðuna á leikmannahópnum sagði hann:

„Hún er bara þokkaleg. Það er einhver smá þreyta eftir álagið undanfarið. Það hafa nokkrir leikmenn verið að spila í deild og Meistaradeildinni. Það var tiltölulega auðveld æfing hjá sumum í dag en aðrar fóru í smá keyrslu.“

Um æfingavikuna fram undan sagði Þorsteinn:

„Þetta verður ósköp hefðbundið fyrir verkefnið. Við erum að æfa einu sinni á dag. Við æfum á morgun og föstudag og tökum því svo rólega á laugardag.

Svo á morgun fáum við að vita við hvern við erum að fara að spila og hvert við erum að fara. Við tökum þetta dag frá degi allavega fram að sunnudegi.“

Portúgal og Belgía mætast í Portúgal á morgun og kemur það því í ljós annað kvöld hvoru liðinu Ísland mætir á útivelli næstkomandi þriðjudagskvöld.

Hann var þá spurður hvernig undirbúningi Íslands verði háttað með hliðsjón af leik mögulegra andstæðinga liðsins.

„Davíð Snorri verður í Portúgal og fer á leikinn þar. Hann kemur svo beint yfir til okkar og leikgreinir leikinn og við förum svo yfir það á föstudagskvöldið með leikmönnum.

Þá sýnum við fram á styrkleika og veikleika og að hluta til hvað við ætlum að gera og hvernig við ætlum að gera hlutina,“ sagði Þorsteinn að lokum í samtali við KSÍ TV.

mbl.is
Loka