Varamennirnir komu öflugir inn

Arnar Gunnlaugsson
Arnar Gunnlaugsson Ljósmynd/Kristinn Steinn

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var kampakátur að loknum leik Víkings og Vals í kvöld en hans menn komu til baka á ótrúlegan hátt eftir að hafa verið 0:2 undir fram á 70. mínútu og höfðu að lokum betur, 3:2.

Arnar sagðist ekki endilega kenna einhverri bikarþynnku um það hvernig hans menn komu inn í leikinn. Hann vildi meina að þeir hafi einfaldlega mætt mjög sterku Valsliði í kvöld.

„Valur var einfaldlega mikið sterkari en við í fyrri hálfleik, létu boltann ganga vel og við náðum einhvern veginn aldrei að klukka þá. Augljóslega þurftum við því að breyta eitthvað aðeins til í hálfleik og aðallega að mæta í seinni hálfleikinn með smá stolti og sýna okkar fólki úr hverju við erum gerðir og reyna að halda áfram þessari sigurgöngu okkar.“

Víkingar fagna í leikslok.
Víkingar fagna í leikslok. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Arnar gerði fjórfalda skiptingu eftir um klukkustundar leik, sem breytti gangi leiksins.

„Við þurftum að fá eitthvað frá varamönnunum, en það hefur svolítið vantað í sumar vegna meiðsla og annars. Við höfum alltaf teflt fram frábæru byrjunarliði en í fyrra kláruðum við leikina mjög vel því við vorum að fá eitthvað frá mjög sterkum varamönnum. Mér finnst það vera að koma aðeins aftur núna síðustu þrjá til fjóra leiki að varamenn okkar koma gríðarlega öflugir inn. Það er ekkert grín að vera búinn að spila gegn sterku byrjunarliði og fá svo þrjá til fjóra svona öfluga leikmenn á sig með ferska fætur.“

Danijel Dejan Djuric var frábær í liði Víkings eftir að hann kom inn á sem varamaður á 62. mínútu. Hann minnkaði muninn átta mínútum síðar og skoraði svo sigurmark Víkings á 86. mínútu eftir að Nikolaj Hansen hafði jafnað metin tveimur mínútum áður. Arnar sagðist hafa rætt við Danijel fyrir leik um að hann geti komið inn á vænginn rétt eins og í níuna.

„Ég átti nú kannski ekki von á að hann myndi setja tvö af vængnum í kvöld en frábært fyrir Danijel og frábært fyrir okkur,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, að lokum.

mbl.is