Eiður Smári stígur til hliðar

Eiður Smári Guðjohnsen
Eiður Smári Guðjohnsen Ljósmynd/Kristinn Steinn

Eiður Smári Guðjohnsen hyggst tímabundið stíga til hliðar sem þjálfari karlaliðs FH í fótbolta. Félagið staðfesti tíðindin í fréttatilkynningu í dag.

Eiður hefur að sama skapi beðið um frið til að vinna í sínum málum, en FH vonast til að hann snúi aftur í þjálfarateymið í náinni framtíð.

Samkvæmt Fótbolta.net var Eiður Smári gripinn af lögreglunni, ölvaður við akstur eftir æfingu hjá FH fyrr í þessari viku. Vegna þessa hélt FH fund í dag, þar sem var ákveðið að Eiður myndi stíga til hliðar.

„Eiður Smári Guðjohnsen, þjálfari meistaraflokks karla, hefur ákveðið, í samráði við stjórn knattspyrnudeildar FH, að stíga til hliðar af persónulegum ástæðum,“ segir m.a. í yfirlýsingu félagsins.

Sigurvin Ólafsson verður áfram þjálfari liðsins en óljóst hvort nýr maður kemur inn í þjálfarateymið í fjarveru Eiðs.

Tilkynning FH:

Eiður Smári Guðjohnsen, þjálfari meistaraflokks karla, hefur ákveðið í samráði við stjórn knattspyrnudeildar FH að stíga til hliðar af persónulegum ástæðum.

Eiður Smári biður um svigrúm til að vinna í sínum málum og báðir aðilar vonast eftir því að sú vinna verði árangursrík og að Eiður Smári snúi aftur í þjálfarateymi FH í náinni framtíð.

Sigurvin Ólafsson tekur við þjálfun liðsins.

Stjórn knattspyrnudeildar FH

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert