Sex sigrar í röð gegn Portúgal

Hólmfríður Magnúsdóttir og Rakel Hönnudóttir fagna marki gegn Portúgal í …
Hólmfríður Magnúsdóttir og Rakel Hönnudóttir fagna marki gegn Portúgal í Algarve-bikarnum árið 2010. Ljósmynd/Algarvephotopress

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu hefur unnið sex síðustu landsleiki gegn Portúgal, sem verður andstæðingur þess í umspilinu um sæti í lokakeppni heimsmeistaramótsins á þriðjudaginn kemur.

Portúgal vann Belgíu 2:1 í undanúrslitum umspilsins í Vizela í Portúgal í kvöld og fær því aftur heimaleik, nú gegn Íslandi í Pacos de Ferreira.

Ísland og Portúgal hafa mæst níu sinnum. Ísland hefur sigrað sex sinnum, tapað tvisvar, og einu sinni hafa þjóðirnar skilið jafnar.

Portúgalir unnu tvo fyrstu leikina sem voru vináttulandsleikir í Portúgal sumarið 1995. Fyrri leikurinn endaði 2:1 þar sem Guðrún Sæmundsdóttir, móðir Hlínar Eríksdóttur núverandi landsliðskonu, skoraði mark Íslands.

Sá  seinni endaði 3:2 þar sem Guðlaug Jónsdóttir og Margrét Ólafsdóttir skoruðu fyrir íslenska liðið sem lenti 3:0 undir.

Þriðji leikurinn var á Opna Norðurlandamótinu sem var haldið í Portúgal í mars árið 1997. Þar léku liðin um sjöunda sæti mótsins og gerðu 0:0 jafntefli. Ísland vann vítakeppni 4:3 þar sem Ásthildur Helgadóttir, Auður Skúladóttir, Guðrún Jóna Kristjánsdóttir og Bergþóra Laxdal skoruðu úr sínum spyrnum.

Margrét Lára Viðarsdóttir sækir að marki portúgalska liðsins á Laugardalsvellinum …
Margrét Lára Viðarsdóttir sækir að marki portúgalska liðsins á Laugardalsvellinum árið 2006 þegar hún skoraði tvívegis í 3:0 sigri Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Næst mættust þjóðirnar árið 2006 þegar þær voru saman í riðli í undankeppni HM. Ísland vann fyrri leikinn á Laugardalsvellinum, 3:0, þar sem Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði tvö mörk og Greta Mjöll Samúelsdóttir eitt. Það var 100. landsleikur Íslands í kvennaflokki.

Sama haust mættust liðin í Portúgal og þá vann Ísland stórsigur, 6:0. Margrét Lára skoraði fjögur markanna og Katrín Jónsdóttir hin tvö.

Næst mættust Portúgal og Ísland í Algarve-bikarnum í Portúgal í mars 2007 og þá vann Ísland aftur örugglega, 5:1. Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði þrennu og Katrín Jónsdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir sitt markið hvor.

Aftur mættust liðin í sömu keppni í mars 2008 og enn vann Ísland, nú 3:0. Margrét Lára skoraði tvö fyrstu mörkin og Katrín Jónsdóttir það þriðja.

Þriðja viðureign liðanna í Algarve-bikarnum var í mars 2010 og þá vann Ísland í þriðja sinn með markatölunni 3:0.  Hólmfríður Magnúsdóttir, Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir og Dóra María Lárusdóttir skoruðu mörkin.

Á síðustu tólf árum hafa Ísland og Portúgal aðeins mæst einu sinni. Það var enn og aftur í Algarve-bikarnum í Portúgal í mars 2019, og enn vann Ísland af öryggi, nú 4:1.

Agla María Albertsdóttir, Selma Sól Magnúsdóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir skoruðu, sem og Margrét Lára Viðarsdóttir sem enn og aftur hrelldi portúgalska liðið. Hún skoraði því níu af 79 mörkum sínum fyrir íslenska landsliðið í leikjum gegn Portúgal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert