„Skrítið að geta ekki undirbúið sig strax“

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir kveðst spennt fyrir komandi verkefni íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu í umspili um laust sæti á HM 2023 í næstu viku þó ekki sé enn komið á hreint hver andstæðingurinn verður.

„Það er bara mjög gaman [að koma til móts við hópinn]. Við erum allar mjög spenntar fyrir þessu og mjög gaman að hitta alla,“ sagði Áslaug Munda í samtali við KSÍ TV.

Í kvöld kemur í ljós hvort Ísland mæti Portúgal eða Belgíu ytra næstkomandi þriðjudag.

Spurð hvernig það væri að koma inn í mikilvægt verkefni án þess að vita mótherjann strax sagði hún:

„Það er öðruvísi. Það er svolítið skrítið að geta ekki undirbúið sig strax.

Skrítið að vita ekki á móti hverjum við erum að fara að spila, hvar eða neitt þannig. En þá skiptir bara máli að vera vel einbeittar þegar við vitum það og byrja strax.“

Gengur vel hjá Harvard

Áslaug Munda er á mála hjá Breiðabliki hér á landi en er í námi í hinum virta Harvard-háskóla og leikur þar sem sterku liði skólans.

„Okkur er bara búið að ganga vel. Við vorum ósigraðar þangað til í fyrradag en það er búið að vera mjög gaman og mér hefur gengið ágætlega persónulega,“ sagði hún um tímabilið með Harvard-liðinu hingað til.

mbl.is