„Vildi persónulega fá Barcelona og Rosengård“

Glódís Perla Viggósdóttir.
Glódís Perla Viggósdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Glódís Perla Viggósdóttir, einn reyndasti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, segir það brýnt að reyna að nýta vonbrigðin sem fylgdu tapi gegn Hollandi í síðasta mánuði til jákvæðra hluta í umspili um laust sæti á HM 2023 í næstu viku.

Ísland missti naumlega af beinu sæti á HM þegar Holland skoraði dramatískt sigurmark í uppbótartíma í undankeppninni í síðasta mánuði. Í samtali við KSÍ TV í dag var hún spurð hvað liðið gæti tekið með sér úr þeim leik fyrir leikinn gegn annað hvort Portúgal eða Belgíu næstkomandi þriðjudag.

„Ég held að það sé aðallega að taka með okkur þessa svekkelsistilfinningu og reyna að nýta hana í eitthvað gott, breyta henni í jákvæða tilfinningu og vonandi komast á HM,“ sagði Glódís Perla.

Skrítið hvernig UEFA setur þetta upp

Hún sagði það undarlegt hvernig UEFA hafi stillt upp umspilinu þar sem Ísland þarf að bíða þar til í kvöld eftir því að fá að vita hvort liðið mæti Portúgal eða Belgíu ytra.

„Þetta er náttúrlega mjög skrítið hvernig þetta er sett upp hjá UEFA. Þetta er allt öðruvísi en maður er vanur.

En ég held að þetta sé bara fínt, við náum þá að einbeita okkur meira að okkur sjálfum og undirbúa okkur í því sem við þurfum að laga.

Það skiptir í rauninni engu máli á móti hverjum það er, þetta eru bara svona grundvallaratriði sem við þurfum að fínpússa.

Ég held að það sé bara jákvætt fyrir okkur að vissu leyti, að við séum að einbeita okkur 100 prósent að okkur, allavega fyrstu dagana.“

Gaman að fara heim til Malmö

Glódís Perla er lykilmaður hjá þýska stórliðinu Bayern München. Í vikunni dróst liðið í riðil með Barcelona, gömlu félögum hennar í Rosengård og Benfica.

„Mér líst mjög vel á riðilinn. Ég held að allir riðlarnir séu sterkir þannig að það verður mikið af góðum leikjum. Ég vildi persónulega fá Barcelona og Rosengård, þannig að ég er mjög ánægð með þetta.

Maður vill náttúrlega spila á móti þeim bestu þannig að það er mjög gaman að fá að spila á móti Barcelona. Svo verður gaman að fara heim til Malmö að spila.

Svo vorum við líka með Benfica í riðli í fyrra þannig að við þekkjum þær. Við vorum í styrkleikaflokki 2 og gerum kröfu um að fara upp úr þessum riðli og í 8-liða úrslitin,“ sagði hún að lokum í samtali við KSÍ TV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert