Sigurður Heiðar Höskuldsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari karlaliðs Vals í knattspyrnu.
Knattspyrnudeild Vals tilkynnti formlega um ráðninguna á samfélagsmiðlum í dag.
Sigurður Heiðar var síðast aðalþjálfari Leiknis úr Reykjavík en lét af störfum þar eftir þriggja ára starf þar sem hann stýrði liðinu upp úr 1. deild á sínu fyrsta tímabili.
Léku Breiðhyltingar svo undanfarin tvö tímabil í efstu deild, þaðan sem liðið féll á dögunum.
„Siggi Höskulds er íþróttafræðingur og er með A-gráðu þjálfaramenntunar frá KSÍ og er að taka UEFA pro frá KSÍ.
Hann verður í fullu starfi hjá Val og mun koma að afreksþjálfun yngri leikmanna félagsins ásamt því að móta framtíðarstefnu knattspyrnudeildar með þeim Arnari Grétarssyni [þjálfara karlaliðsins], þjálfarateymi meistaraflokks kvenna og Eysteini Húna Haukssyni yfirþjálfara,“ sagði meðal annars í tilkynningu knattspyrnudeildar Vals.