KR-ingar biðja Kjartan Henry afsökunar

Kjartan Henry Finnbogason.
Kjartan Henry Finnbogason. mbl.is/Óttar Geirsson

Knattspyrnudeild KR hefur beðið framherjann Kjartan Henry Finnbogason afsökunar á vinnubrögðum sínum í tengslum við uppsögn á samningi leikmannsins á dögunum.

Þetta kom fram í fréttatilkynningu sem birtist á Facebook-síðu KR-inga en Kjartan Henry var leystur undan samningi hjá félaginu 13. október.

Kjartan Henry, sem er 36 ára gamall, er uppalinn í Vesturbænum og á að baki 133 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 49 mörk.

„Að undanförnu hafa samningsmál Kjartans Henry Finnbogasonar, leikmanns meistaraflokks karla í knattspyrnu og félagsins verið til umfjöllunar í fjölmiðlum,“ segir í tilkynningu KR-inga.

„Stjórn knattspyrnudeildar KR harmar þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í tengslum við uppsögn á samningi Kjartans.

Stjórn knattspyrnudeildar KR vill enn fremur árétta að Kjartan Henry hefur aldrei nokkurn tímann gerst brotlegur við reglur félagsins eða viðhaft einhvers konar háttsemi sem felur í sér agabrot af einhverju tagi,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert