Perry Mclachlan hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs KR í knattspyrnu.
Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni í dag en Vignir Snær Stefánsson verður aðstoðarþjálfari Perrys.
Perry, sem er fæddur árið 1990, var annar þjálfari Þórs/KA á nýliðnu keppnistímabili en hann hefur starfað á Íslandi frá árinu 2019.
„Við bindum miklar vonir við nýtt teymi og hlökkum til samstarfsins á komandi tímabili,“ segir meðal annars í tilkynningu KR-inga.
KR hafnaði í neðsta sæti Bestu deildarinnar á síðustu leiktíð og leikur því í 1. deildinni næsta sumar. Þjálfararnir Arnar Páll Garðarsson og Chris Harrington hættu störfum að tímabilinu loknu.