„Þetta var lokaður leikur og þó þeir hafi verið meira með boltann voru þeir ekki að ógna okkur mikð,“ sagði Júlíus Magnússon, miðjumaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við vefsjónarp KSÍ, eftir 0:1-tap liðsins gegn Suður-Kóreu í vináttulandsleik í Hwaseong í Suður-Kóreu í dag.
„Mér fannst við loka vel á þá og okkur þegar að við þorðum að pressa þá á þeirra eigin vallarhelmingi þá komum við okkur oft í góðar stöður. Eins þá fengum við fín tækifæri þegar að við þorðum að halda í boltann og spila okkur í gegnum þá og það er kannski mest svekkjandi að hafa ekki náð að nýta þær leikstöður betur,“ sagði Júlíus.
Júlíus var að leika sinn þriðja A-landsleik á ferlinum í dag.
„Ég er heilt yfir sáttur með frammistöðu okkar miðjumannanna. Við náðum að þrýsta þeim út á kantana og ég er ánægður með að þeir hafi ekki náð að spila sig í gegnum okkur á miðsvæðinu,“ sagði Júlíus meðal annars.