Aldrei komið til tals að neita að spila

Íslenska karlalandsliðið á að mæta Lettlandi í úrslitaleik Eystrasaltsbikarsins í …
Íslenska karlalandsliðið á að mæta Lettlandi í úrslitaleik Eystrasaltsbikarsins í Riga í Lettlandi á morgun. Ljósmynd/KSÍ

„Það hefur aldrei komið til tals að neita að spila gegn Lettlandi,“ sagði Ómar Smárason, deild­ar­stjóri sam­skipta­deild­ar Knattspyrnusambands Íslands, í samtali við mbl.is í dag.

Íslenska karlalandsliðið er nú statt í Riga í Lettlandi þar sem liðið undirbýr sig fyrir úrslitaleik Eystrasaltsbikarsins en leikurinn á að fara fram Daugavas-vellinum á morgun.

Sparkspekingurinn Hjörvar Hafliðason greindi frá því á Twitter í dag að íslenska liðið hefði neitað að spila á Daugavas-vellinum vegna slæmra vallaraðstæðna.

 „Völlurinn var mjög erfiður í morgun og við kláruðum ekki æfinguna,“ sagði Ómar.

„Það var frost í morgun og það er spáð fjögurra til níu stiga frosti á morgun þannig að aðstæður verða litlu skárri þá. Eins og staðan er núna erum við bara að skoða þá möguleika sem eru til staðar og hvort það séu mögulega betri vallaraðstæður einhvers staðar annars staðar í landinu,“ sagði Ómar.

Ómar vonast til þess að niðurstaða fáist í málið í dag.

„Við erum fyrst og fremst að hugsa um hag leikmannanna en það er of snemmt að tala um það að hætta við leikinn. Við erum bara í viðræðum við knattspyrnusambandið hérna út og svo sjáum við hvað setur.

Vonandi kemst einhver niðurstaða í þetta mál í dag eða í kvöld og þegar að það gerist þá munum við birta einhverja tilkynningu á heimasíðu KSÍ,“ bætti Ómar við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert