Frá Þrótti til Breiðabliks

Ásmundur Arnarsson, þjálfari kvennaliðs Breiðabliks, og Andrea Rut Bjarnadóttir handsala …
Ásmundur Arnarsson, þjálfari kvennaliðs Breiðabliks, og Andrea Rut Bjarnadóttir handsala samkomulagið í dag. Ljósmynd/Breiðablik

Knattspyrnukonan Andrea Rut Bjarnadóttir er gengin í raðir Breiðabliks. Kemur hún frá uppeldisfélaginu Þrótti úr Reykjavík og hefur skrifað undir þriggja ára samning við knattspyrnudeild Breiðabliks.

Andrea Rut er aðeins 19 ára gömul en hefur þrátt fyrir ungan aldur verið algjör lykilmaður hjá Þrótti undanfarin tímabil enda leikið 51 leik og skorað fimm mörk í efstu deild með liðinu og 36 leiki í næstefstu deild, þar sem hún skoraði 11 mörk.

Hún er fjölhæfur miðjumaður sem getur leikið sem sóknartengiliður og á báðum köntum og er þekkt fyrir hættulegar spyrnur sínar.

Andrea Rut lék sinn fyrsta A-landsleik fyrir Íslands hönd í sumar þegar U23-ára landsliðið mætti Eistlandi og vann 2:0. Leikurinn var skráður sem A-landsleikur hjá öllum sem tóku þátt í honum.

Hún hefur þá leikið 23 leiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað í þeim tvö mörk.

mbl.is