Ragnar ráðinn aðstoðarþjálfari Fram

Ragnar Sigurðsson (til hægri) í leik með Fylki sumarið 2021.
Ragnar Sigurðsson (til hægri) í leik með Fylki sumarið 2021. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Ragnar Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, er tekinn við starfi aðstoðarþjálfara karlaliðs Fram þar sem hann verður þjálfaranum Jóni Sveinssyni innan handar.

Ragnar hafði sjálfur frumkvæði að ráðningunni með því að slá á þráðinn til Jóns, en þeir unnu saman þegar Jón var aðstoðarþjálfari Leifs Garðarssonar hjá Fylki og þjálfari 2. flokks liðsins, þegar Ragnar steig sín fyrstu skref með meistaraflokki Fylkis.

„Ég hringdi bara sjálfur í Jón og spurði hann að því hvort hann vantaði ekki aðstoðar­mann. Hann ætlaði að tala við stjórnina og þegar það var komið á hreint þá tók þetta ekki langan tíma.

Jón þjálfaði mig í Fylki og ég taldi að hann væri akkúrat sú týpa sem ég myndi vilja vinna með þegar ég er að taka mín fyrstu skref. Ég hef góða reynslu af honum,“ sagði Ragnar í samtali við Fréttablaðið.

Ragnar lék 97 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim fimm mörk, þar á meðal eftirminnilegt jöfnunarmark gegn Englandi í 2:1-sigri Íslands í 16-liða úrslitum EM 2016.

Hann lagði skóna á hilluna í byrjun þessa árs eftir farsælan atvinnumannaferil.

mbl.is