Fyrirliðinn verður fimmtánda árið með HK

Leifur Andri Leifsson, lengst til vinstri, fagnar eftir að HK …
Leifur Andri Leifsson, lengst til vinstri, fagnar eftir að HK tryggði sér úrvalsdeildarsæti í haust. mbl.is/Árni Sæberg

Knattspyrnudeild HK hefur framlengt samning sinn við fyrirliða karlaliðs félagsins, Leif Andra Leifsson, til eins árs.

Leifur Andri er 33 ára gamall varnarmaður sem hefur leikið allan sinn feril með HK, nema hvað hann lék tvö tímabil með varaliði félagsins, Ými, í 3. deild. Frá og með 2009 hefur hann leikið samfleytt með meistaraflokki HK og er leikjahæsti knattspyrnumaðurinn í sögu Kópavogsfélagsins. Hann er því að hefja sitt fimmtánda meistaraflokkstímabil með HK.

Leifur Andri á að baki 246 leiki með HK í þremur efstu deildum Íslandsmótsins og þar af eru 47 leikir í efstu deild og 168 leikir í 1. deild. Mótsleikir hans fyrir félagið eru 365 talsins.

HK vann sér sæti í úrvalsdeildinni á ný eftir árs fjarveru með því að ná öðru sæti 1. deildar á nýliðnu keppnistímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert