Frá Færeyjum til Íslandsmeistaranna?

Klæmint Olsen.
Klæmint Olsen. Ljósmynd/@EURO2024

Færeyski knattspyrnumaðurinn Klæmint Olsen gæti verið á leið til Íslandsmeistara Breiðabliks.

Það er færeyski miðillinn Bolt.fo sem greinir frá þessu en Olsen er á förum frá NSÍ Runavík eftir að liðið féll úr efstu deild Færeyja á nýliðnu keppnistímabili.

Framherjinn, sem er 32 ára, hefur einnig verið orðaður við bæði HB og B36 í heimalandi sínu en hann er markahæsti leikmaður í sögu færeysku efstu deildarinnar.

Breiðablik fagnaði öruggum sigri í Bestu deildinni á dögunum en félagið gekk á dögunum frá samningi við færeyska sóknarmanninn Patrik Johannesen frá Keflavík.

mbl.is