Mæta Danmörku, Svíþjóð og Úkraínu

Sædís Rún Heiðarsdóttir er fyrirliði U19 ára landsliðsins.
Sædís Rún Heiðarsdóttir er fyrirliði U19 ára landsliðsins. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Íslenska stúlknalandsliðið í knattspyrnu, skipað leikmönnum yngri en 19 ára, verður í sterkum riðli í annarri umferð undankeppni Evrópumótsins en dregið var í morgun.

Íslenska liðið verður í riðli með Danmörku, Svíþjóð og Úkraínu í A-deild mótsins, en þar leika 28 lið um sjö sæti í lokakeppninni sem fer fram í Belgíu næsta vor.

Íslensku stúlkurnar voru í B-deild í fyrstu umferðinni en unnu þar sinn riðil með yfirburðum og skoruðu 15 mörk gegn engu í leikjum við Færeyjar, Litháen og Liechtenstein.

Leikið er áfram með þessu deildafyrirkomulagi en sigurliðið í riðli Íslands síðar í vetur fer í úrslitakeppnina í Belgíu og neðsta liðið þarf að hefja næstu undankeppni í B-deild.

Ekki hefur verið gefið út hvar verður spilað en nokkuð ljóst er að það verður í Danmörku eða Svíþjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert