Gamla ljósmyndin: Bráðefnilegur sjónvarpsmaður

Úr safni Morgunblaðsins.

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Akureyringurinn Guðmundur Benediktsson hefur verið meðal þekktustu sjónvarpsmanna á Íslandi síðasta áratuginn eða svo. Vakti raunar athygli langt út fyrir landsteinana sumarið 2016 þegar geðshræringin tók völdin í lýsingum frá EM karla í knattspyrnu. 

Íþróttaunnendur sem muna eitthvað aftur í tímann vita að Guðmundur var lykilmaður í Íslandsmeistaraliði Vals árið 2007. Þeir sem muna lengra aftur í tímann vita að Guðmundur var lykilmaður í liði KR sem vann tvöfalt árið 1999 og var þá kosinn leikmaður ársins af leikmönnum í deildinni. 

Þeir sem muna enn lengra aftur vita að Guðmundur var sérlega efnilegur knattspyrnumaður. Sé til að mynda miðað við aldurinn þegar grunnskólagöngunni er að ljúka þá er Guðmundur líklega í hópi þeirra efnilegustu sem komið hafa fram hérlendis og var á þeim aldri á meðal bestu leikmanna í Evrópu í sínum aldursflokki. Lið í efstu deildum í Englandi og Þýskalandi sýndu honum áhuga á þessum tíma eins og Tottenham, Everton og Stuttgart. 

Á meðfylgjandi mynd er Guðmundur að skora fyrir U19-ára landsliðið í vináttulandsleik gegn Austurríki á nýjum velli á Hvolsvelli sumarið 1990 en Guðmundur var þá nýorðinn 16 ára. Ísland sigraði 3:0 í leiknum en myndin er ómerkt í myndasafni Morgunblaðsins.

Skoraði Guðmundur fimm mörk í jafnmörgum leikjum fyrir U19 ára landsliðið árið 1990 þótt enn væri hann gjaldgengur í U17 ára liðið og náði auk þess í tvær vítaspyrnur sem skiluðu mörkum gegn Englendingum. 

Í leikjum með U17 ára landsliðinu var Guðmundur illviðráðanlegur og skoraði fimm í sjö leikjum. Í Evrópukeppninni rótburstaði Ísland til dæmis lið Wales 6:0 á Selfossi þar sem Guðmundur skoraði og skoraði Helgi Sigurðsson þrennu. 

Guðmundur hafði því í nógu að snúast þetta sumar og um haustið gerðist hann atvinnumaður hjá Ekeren í Belgíu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert