Dagur á leiðinni til Orlando

Dagur Dan Þórhallsson fagnar marki í leik með Breiðabliki.
Dagur Dan Þórhallsson fagnar marki í leik með Breiðabliki. mbl.is/Óttar Geirsson

Knattspyrnumaðurinn Dagur Dan Þórhallsson, leikmaður Íslandsmeistara Breiðabliks, er á förum til Bandaríkjanna þar sem hann gengur til liðs við Orlando City í MLS-deildinni.

Frá þessu var skýrt í hlaðvarpsþættinum Dr. Football og mbl.is hefur fengið staðfest að samningar á milli Breiðabliks og Orlando City séu á lokastigi.

Dagur Dan átti frábært ár með Breiðabliki á síðasta ári og lék stórt hlutverk í sigri liðsins á Íslandsmótinu, sem og góðri frammistöðu í Evrópukeppni. Hann lék í kjölfarið sína fyrstu A-landsleiki í nóvember þegar Ísland mætti Sádi-Arabíu og Suður-Kóreu og lék aftur nú í janúar gegn Eistlandi og Svíþjóð.

Dagur er 22 ára gamall og lék fyrst með Haukum, var um skeið í röðum Gent í Belgíu, lék eitt tímabil með Keflavík, var á mála hjá Mjöndalen í Noregi og spilaði í láni hjá Kvik Halden þar í landi, en kom til Fylkis í láni frá Mjöndalen tímabilið 2021. Þaðan fór hann til Breiðabliks fyrir síðasta tímabil og skoraði níu mörk í 25 leikjum Kópavogsliðsins í Bestu deildinni.

Orlando City hafnaði í sjöunda sæti Austurdeildar MLS á síðasta ári og komst í úrslitakeppnina en féll þar út í fyrstu umferð. Þjálfari liðsins er Óscar Pareja, 54 ára gamall Kólumbíumaður, sem hefur stýrt liðinu frá árinu 2019.

Orlando City er aðeins níu ára gamalt félag, stofnað árið 2013, og fékk sæti í MLS-deildinni árið 2015. Besta árangri sínum náði liðið árið 2020 þegar það endaði í fimmta sæti í heildina og féll út í átta liða úrslitunum um meistaratitilinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert