Snýr aftur í Laugardalinn

Sierra Marie Lelii er komin aftur til liðs við Þrótt.
Sierra Marie Lelii er komin aftur til liðs við Þrótt. Ljósmynd/Þróttur

Bandaríska knattspyrnukonan Sierra Marie Lelii hefur gengið til liðs við Þrótt á nýjan leik og skrifað undir samning um að leika með liðinu á komandi tímabili.

Lelii lék síðast með Þrótti í næstefstu deild árið 2017.

Hún lék þá 18 leiki og skoraði 7 mörk í deildinni en gekk að tímabilinu loknu til liðs við Hauka.

Lelii settist að á Íslandi og hefur búið hér allar götur frá því hún kom hingað fyrst.

Hún hefur í heild leikið 46 deildarleiki á Íslandi og skorað í þeim 23 mörk í B og C-deild, en síðast var hún á mála hjá ÍH.

„Hún hefur æft með meistaraflokki Þróttar undanfarna mánuði, staðið sig mjög vel og mun styrkja hópinn verulega í sumar. Bjóðum hana velkomna í Þrótt á ný,“ sagði í tilkynningu frá knattspyrnudeild Þróttar.

mbl.is