Snýr aftur til norðankvenna

Tahnai Annis í leik með Þór/KA gegn Breiðabliki sumarið 2012.
Tahnai Annis í leik með Þór/KA gegn Breiðabliki sumarið 2012. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þór/KA hefur samið við sóknartengiliðinn Tahnai Annis, fyrirliða kvennaliðs Filippseyja í knattspyrnu. Annis lék áður með liðinu á árunum 2012 til 2014 og varð Íslandsmeistari með því árið 2012.

Samningur hennar gildir út komandi tímabil.

Annis er fædd í Ohio í Bandaríkjunum og er bæði með bandarískt og filippseyskt ríkisfang. Er hún á leið á HM 2023 í Ástralíu og Nýja-Sjáland í ágúst með Filippseyjum.

Hún er 33 ára gömul og á að baki 54 leiki fyrir Þór/KA í efstu deild þar sem hún skoraði 16 mörk. Annis á þá 31 landsleik að baki fyrir Filippseyjar.

„Hún er auðvitað gæðaleikmaður. Við vitum það frá því að hún var hér 2012-14, en lykilatriði fyrir okkur núna er að fá reynslu inn í hópinn. Það er stórt atriði fyrir okkur eins og hópurinn er samsettur.

Hún gerir alla leikmenn í kringum sig betri. Okkar ungi og efnilegi hópur hefur mjög gott af því. Þetta á eftir að hjálpa okkar leikmönnum sem fyrir eru mjög mikið.

Auðvitað er hún líka frábær leikmaður og það spilar vissulega inn í þessa ákvörðun hjá okkur,“ sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA í samtali við heimasíðu félagsins.

mbl.is