Árni verður áfram á Skaganum

Árni Marinó Einarsson í leik með ÍA sumarið 2021.
Árni Marinó Einarsson í leik með ÍA sumarið 2021. mbl.is/Kristinn Magnússon

Árni Marinó Einarsson, markvörður ÍA í knattspyrnu, hefur skrifað undir nýjan samning við félagið. Samningurinn gildir út keppnistímabilið 2025.

Árni Marinó, sem er tvítugur, á að baki 23 leiki í efstu deild fyrir ÍA en liðið féll úr henni á síðasta tímabili og leikur því í B-deild á komandi tímabili.

„Ég er gríðarlega ánægður með að Árni Marinó hafi framlengt samning sinn við ÍA enda tel ég hann vera besta unga markmanninn á Íslandi í dag,“ sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, í tilkynningu frá knattspyrnudeild ÍA.

Keppinautur hans um markvarðarstöðuna og nafni, Árni Snær Ólafsson, er genginn til liðs við Stjörnuna eins og skýrt var frá í síðustu viku.

mbl.is