Eyjakonur styrkja sig

Kristjana R. Kristjánsdóttir Sigurz í leik með ÍBV sumarið 2020.
Kristjana R. Kristjánsdóttir Sigurz í leik með ÍBV sumarið 2020. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Knattspyrnukonan Kristjana R. Kristjánsdóttir Sigurz hefur skrifað undir eins árs samning við ÍBV. Kemur hún frá uppeldisfélagi sínu, Breiðabliki.

Kristjana, sem er tvítug, hefur áður leikið með ÍBV en það gerði hún sem lánsmaður sumarið 2020 og einnig sumarið 2021.

Á síðasta tímabili lék hún 11 leiki með Breiðabliki í Bestu deildinni en hafði áður spilað 32 leiki fyrir ÍBV og skorað í þeim eitt mark í efstu deild.

Einnig hefur Kristjana leikið 38 leiki fyrir venslafélag Breiðabliks, Augnablik, í B og C-deild.

„Kristjana mun passa mjög vel inn í leikmannahóp ÍBV sem hefur leik í Lengjubikarnum í febrúar og leikur með ÍBV nú 13. leiktíðina í röð í efstu deild, en Besta deildin hefst í apríl,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá knattspyrnudeild ÍBV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert