Frá Breiðabliki til Basel

Heiðdís er komin til Basel.
Heiðdís er komin til Basel. Ljósmynd/Basel

Knattspyrnukonan Heiðdís Lillýjardóttir hefur gert tveggja og hálfs árs samning við svissneska félagið Basel en hún kemur til félagsins frá Breiðabliki, þar sem hún hefur leikið frá árinu 2017.

Heiðdís er uppalin hjá Hetti á Egilsstöðum en skipti yfir til Selfoss árið 2015 og svo Breiðabliks tveimur árum síðar. Hún var að láni hjá portúgalska félaginu Benfica á síðasta tímabili en fékk lítið að spreyta sig.

Varnarmaðurinn, sem er 26 ára, hefur leikið 126 leiki í efstu deild hér á landi og skorað í þeim fjögur mörk. Þá á hún 60 leiki að baki í 1. deild og 27 mörk. Heiðdís hefur leikið 19 leiki með yngri landsliðum Íslands, en ekki fengið tækifæri hjá A-landsliðinu.

Basel er sem stendur í fimmta sæti svissnesku A-deildarinnar með 15 stig eftir tíu leiki. Liðið endaði í fjórða sæti á síðasta tímabili. Fyrsti leikur eftir vetrarfrí í deildinni er gegn Aarau 11. febrúar.

mbl.is