Vonandi framtíðarleikmaður hjá okkur

Ólöf Sigríður Kristinsdóttir er komin í A-landsliðið.
Ólöf Sigríður Kristinsdóttir er komin í A-landsliðið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, sóknarmaður hjá Þrótti úr Reykjavík, er í landsliðshópi Íslands sem mætir til leiks á knattspyrnumótið Pinatar Cup á Spáni síðar í mánuðinum.

Ólöf, sem er 19 ára, hefur skorað 18 mörk í 39 leikjum í efstu deild hér á landi á ferlinum og verið einn besti leikmaður Þróttar undanfarin ár. Hún er í A-landsliðinu í fyrsta skipti.

„Hún er með fína eiginlega sem framherji. Hún skorar mörk, er líkamlega sterk og getur haldið boltanum. Vonandi getur hún orðið framtíðarleikmaður hjá okkur,“ sagði landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson í samtali við mbl.is um framherjann.

„Auðvitað þarf hún að halda áfram að þróast, þroskast og verða betri. Vonandi sjáum við eitthvað í henni sem við getum haldið áfram að vinna með,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert