Morten Beck krefst 14 milljóna frá FH

Morten Beck Guldsmed og Eiður Smári Guðjohnsen þáverandi þjálfari FH …
Morten Beck Guldsmed og Eiður Smári Guðjohnsen þáverandi þjálfari FH ræða málin. mbl.is/Árni Sæberg

Danski knattspyrnumaðurinn Morten Beck Guldsmed telur FH skulda sér 14 milljónir króna og ætlar að draga félagið fyrir dómstóla. 

Frá þessu greindi Hjörvar Hafliðason í hlaðvarpsþætti sínum, Dr. Football. Þar sagði hann jafnframt frá því að lögmaður Danans fari fram á að FH fái hámarkssekt og verði dæmt í tveggja ára félagaskiptabann. 

Sagt er að FH hafi borgað Dananum sem verktaka en að hann telji sig hafa átt að vera launamann.

„Hann er farinn með FH-inga í dómsalinn. Hann vill meina að FH skuldi sér fyrir meira en tvö tímabil, 14 milljónir króna. FH viðurkennir að skulda en ekki allar 14 milljónirnar. Af gögnum málsins að dæma hefur Morten Beck rétt fyrir sér og líklegt að FH-ingar þurfi að borga þetta í topp. Þetta er skítamál fyrir Hafnfirðinga,“ sagði Hjörvar. 

Morten Beck Guldsmed lék tvö og hálft tímabil með Fimleikafélaginu, ásamt því að vera lánaður til ÍA hálft tímabil. Fyrsta tímabil hans var gott í Hafnarfirðinum þar sem hann skoraði átta mörk í jafnmörgum leikjum en tímabilin tvö eftir það stóðst hann alls ekki undir væntingum og skoraði aðeins tvö deildarmörk í 21 leik fyrir FH. 

Í grein Fótbolta.net um málið segir miðilinn frá því að Valdimar Svavarsson, formaður FH, sé búinn að staðfesta að félagið hafi fengið kröfur en það hafnar þeim alfarið. Málið fer í ákveðinn farveg og að félagið ætli ekki að tjá sig um það efnislega að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert