Fyrrverandi leikmaður KR lést á dögunum

Mia Gunter í leik með KR sumarið 2018.
Mia Gunter í leik með KR sumarið 2018. mbl.is//Hari

Knattspyrnukonan Mia Gunter lést á dögunum en hún lék með KR hér á landi tímabilið 2018.

Gunter var einungis 28 ára gömul þegar hún lést en hún lék 17 leiki með KR í efstu deild þar sem hún skoraði þrjú mörk.

Hún var fædd og uppalin í Kanada en fjölskylda hennar minnist hennar á vefsíðu Edmonton Journal í dag.

Mia lék einnig í Danmörku á atvinnumannaferli sínum en hún lék í bæði bandaríska- og kanadíska háskólaboltanum á sínum yngri árum.

Eftir að samningur hennar við KR rann út hélt hún til Englands þar sem hún útskrifaðist sem lögfræðingur frá háskólanum í York á dögunum.

Gunter var ekki að glíma við veikindi samkvæmt Edmonton Journal og andlát hennar bar því að með sviplegum hætti.

mbl.is