Albert leggur skóna á hilluna

Albert Brynjar Ingason í leik með Fylki gegn Haukum sumarið …
Albert Brynjar Ingason í leik með Fylki gegn Haukum sumarið 2017. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Albert Brynjar Ingason hefur lagt knattspyrnuskóna á hilluna eftir langan feril. Þetta tilkynnti hann á samfélagsmiðlum í dag.

Albert, sem er 37 ára gamall, var síðast á mála hjá uppeldisfélagi sínu Fylki en náði ekki að spila með liðinu á síðasta tímabili eftir að hafa meiðst alvarlega í leik með Kórdrengjum sumarið 2021. Hefur hann ekki náð að jafna sig að fullu af meiðslunum og ákveður því að láta staðar numið.

Á ferlinum lék hann einnig með FH, þar sem hann varð Íslandsmeistari, auk Vals og Fjölnis. Þá var hann lánaður frá Fylki til Þórs á Akureyri síðari hluta tímabilsins 2005.

Alls lék hann 219 leiki í efstu deild og skoraði í þeim 69 mörk, 57 leiki í B-deild og skoraði í þeim 25 mörk og 20 leiki í C-deild með Kórdrengjum, þar sem hann skoraði 14 mörk. Samtals skoraði hann því 108 mörk í deildakeppninni.

Hann er markahæsti leikmaðurinn í sögu Fylkis í efstu deild með 56 mörk og sá næstleikjahæsti með 167 leiki fyrir félagið í deildinni.

„Eftir síðasta bakslag er nokkuð ljóst að fótboltinn er búinn. Er gríðarlega þakklátur fyrir ferilinn og öllum þeim sem ég kynntist í gegnum fótboltann.

Fótboltinn á Íslandi er einstakur að mínu mati, fólkið á bak við félögin er í þessu út af ást fyrir sínum klúbbi og ekkert annað og leggur á sig mikla og óeigingjarna vinnu fyrir sín félög og hef ég í öllum þeim klúbbum sem ég hef spilað fyrir fundið fyrir því og borið mikla virðingu fyrir því og er þakklátur fyrir það hvernig hefur verið komið fram við mig hjá þeim liðum.

Maður hefur upplifað margt á þessum ferli, Evrópukeppnir, Íslandsmeistaratitil, að falla, komast upp nokkrum sinnum. Í heildina algjör veisla!

Að kveðja mitt fólk í Árbænum inni á vellinum með Fylki síðasta sumar hefði verið draumurinn og var ég grátlega nálægt því en í heildina er ég heppinn hvað ég fékk mörg ár í þessari íþrótt sem ég elska svo mikið. Takk fyrir mig,“ skrifaði Albert á Facebook-síðu sína í dag.

mbl.is