KV sendir nýja kæru til KSÍ

KV úr Reykjavík endaði í 11. sæti 1. deildar í …
KV úr Reykjavík endaði í 11. sæti 1. deildar í fyrra og gerir kröfu til þess að halda sæti sínu í deildinni eftir að Kórdrengjum var vísað úr mótinu. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

KV úr Reykjavík hefur sent nýja kæru til aga- og úrskurðarnefndar Knattspyrnusambands Íslands og krefst þess að fá sæti í 1. deild karla í fótbolta á komandi keppnistímabili.

Auðunn Örn Gylfason, formaður KV, staðfesti þetta við Vísi í dag.

Kæru KV var vísað frá fyrir skömmu með þeim rökum að KV hefði ekki gert með henni skýra kröfu um sæti í 1. deild.

„Við fengum knappan tíma til að leggja fram kæru fyrst og erum betur undirbúnir núna til að koma kærunni til skila í samræmi við það sem var krafist. Nú hafa lögfræðingar okkar skrifað upp kæruna og sá formgalli ætti að vera úr sögunni sem var meginástæðan fyrir því að málinu var vísað frá,“ segir Auðunn við Vísi.

Kórdrengjum var vísað úr keppni í 1. deild á komandi tímabili og þar með losnaði sæti í deildinni, sem og í öllum öðrum deildum þar fyrir neðan. 

Vanalega er það liðið í þriðja sæti í deildinni fyrir neðan sem færist upp um deild í slíkri stöðu. Í þessu tilviki var það Ægir úr Þorlákshöfn og KSÍ tilkynnti strax og Kórdrengir duttu út að Ægir myndi taka sætið.

KV bendir hins vegar á að í þessu tilviki eigi að fara eftir reglum leyfiskerfis KSÍ. Samkvæmt því er það næstneðsta sætið í viðkomandi deild sem fær sætið sem losnar, ef það er vegna þess að þátttökuleyfi annars liðs var hafnað. KV hafnaði í 11. og næstneðsta sæti 1. deildar á síðasta tímabili.

Við erum bara að óska eftir því að farið sé rétt eftir reglugerðum og lögum um knattspyrnumót þegar kemur að því að Kórdrengjum sé vísað úr keppni og öðru liði boðið sæti. Ef farið væri eftir settum reglum ætti KV að vera boðið að fá sætið,“ segir Auðunn við Vísi.

mbl.is