Leitt að þurfa að krefja FH um launin

Morten Beck Guldsmed í leik með FH gegn Víkingi.
Morten Beck Guldsmed í leik með FH gegn Víkingi. mbl.is/Arnþór Birkisson

Danski knattspyrnumaðurinn Morten Beck Guldsmed segir að sér þyki ákaflega leitt að hafa þurft að krefja knattspyrnudeild FH um laun sem hann telur sig eiga vangoldin hjá félaginu, en hjá því hafi ekki verið komist.

Guldsmed hefur krafið FH um 14 milljónir króna sem hann telur sig eiga inni hjá félaginu, auk tveggja milljóna í dráttarvexti.

Hann lék með FH árin 2019 til 2021 og var þá í annað sinn á Íslandi eftir að hafa spilað með KR-ingum tímabilið 2016.

„Þetta er ekki skemmtilegt en nauðsynlegt. Lögfræðingurinn minn vinnur nú af krafti í málinu," sagði Guldsmed við bold.dk í dag.

„Ég er virkilega leiður yfir þessu. Ég átti mjög góðan tíma í íslenska fótboltanum en þessi hlið á því er öðruvísi og leiðinlegri. Ég varð að gera þetta og svo kemur framhaldið í ljós.

Ég kom fyrst til þeirra á stuttum samningi en það gekk svo vel að við gengum frá lengri samningi. Það eru deilur um hann sem hafa endað með þessu. Það er mjög svekkjandi og mér þykir slæmt að það skyldi ekki vera hægt að leysa málin öðruvísi. 

Ég vonaðist alltaf eftir farsælli lausn en hún gekk ekki eftir og nú þarf að gera þetta svona. Þetta hefði ekki þurft að fara á þennan hátt," sagði Guldsmed sem er 35 ára gamall sóknarmaður sem skoraði 16 mörk fyrir KR og FH í efstu deild hér á landi en hann lék auk þess með ÍA um skeið og spilaði alls 59 leiki í deildinni.

Hann leikur ekki knattspyrnu um þessar mundir. Guldsmed var leystur undan samningi við Skive í dönsku C-deildinni í janúar í kjölfar þess að hann fékk alvarlegan heilahristing í leik og varð að draga sig í hlé um sinn af þeim sökum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert