Birkir reynir að fá samningnum rift

Birkir Bjarnason í leik með íslenska landsliðinu.
Birkir Bjarnason í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Unnur Karen

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segir Birki Bjarnason, leikjahæsta leikmann liðsins frá upphafi, nú róa öllum árum að því að fá samningi sínum hjá Adana Demirspor í Tyrklandi rift.

Birkir hefur lítið komið við sögu hjá Demirspor á yfirstandandi tímabili og var ekki valinn í leikmannahóp Íslands sem mætir Bosníu og Hersegóvínu og Liechtenstein í undankeppni EM 2024 síðar í mánuðinum.

Í samtali við mbl.is í dag útskýrði Arnar nánar hvers vegna Birkir væri ekki í hópnum að þessu sinni.

„Þetta er einfaldlega vegna þess að Birkir er á erfiðum stað hjá sínu félagsliði, er í rauninni að rifta samningi og þá líklega, þegar það er klárt, að skrifa undir hjá öðru félagi mjög fljótlega. Það væri þá líklega í Noregi eða Svíþjóð, þar sem félagaskiptaglugginn er opinn.

Það er eitt að hann er ekki að spila mikið en svo er staðan sú að Birkir er 34 ára. Ég veit það af eigin reynslu að þegar maður er orðinn 34 ára þá er mikilvægt, þó maður sé með reynsluna, að vera í leikryþma.“

Tempóið hærra í landsleikjum

Landsliðsþjálfarinn hélt áfram:

„Þegar maður er að koma inn í landsleiki er tempóið hærra í þeim heldur en í leikjum hjá félagsliðum. Aron Einar [Gunnarsson, leikmaður Al-Arabi] þekkir það kannski hvað best, hann hefur oft verið að æfa meira og hraðar síðustu vikurnar áður en hann kemur úr deildinni í Katar yfir í landsleikina.

Það er í rauninni ástæðan fyrir því að Birkir er ekki með okkur en það var alls ekki auðvelt að skilja mann eins og Birki eftir heima, ekki bara vegna þess sem hann hefur gert fyrir liðið undanfarin ár heldur einfaldlega vegna þess að Birkir í topp leikformi á að sjálfsögðu að geta verið í hópnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert