Valur skoraði átta gegn KR

Bryndís Arna Níelsdóttir skoraði þrennu gegn KR í kvöld.
Bryndís Arna Níelsdóttir skoraði þrennu gegn KR í kvöld. mbl.is/Hákon

Valskonur geta enn komist í undanúrslit deildabikars kvenna í fótbolta, Lengjubikarsins, eftir stórsigur á KR á Hlíðarenda í kvöld, 8:1.

Þær hafa lokið keppni og eru með níu stig en Þróttur hefur þegar unnið riðilinn og er með 12 stig. Þór/KA er í þriðja sæti, einnig með níu stig, en nægir jafntefli gegn Selfossi í lokaleik sínum til að ná öðru sætinu og fylgja Þrótti í undanúrslitin.

Reyndar gæti Selfoss enn náð öðru sætinu með tveimur risasigrum gegn KR og Þór/KA en það er ekki sérlega raunhæft.

Fjögur marka Valsliðsins komu á síðustu sjö mínútum leiksins en staðan var aðeins 1:0 í hálfleik. Bryndís Arna Níelsdóttir skoraði þrennu fyrir Val og þær Haley Berg, Þórdís Elva Ágústsdóttir, Lillý Rut Hlynsdóttir, Anna Rakel Pétursdóttir og Ásdís Karen Halldórsdóttir gerðu eitt mark hver en Vera Mattila skoraði fyrir KR sem er án stiga.

mbl.is