Kveðst fá betri laun hjá Þór en Öster

Marc Rochester í treyju Öster.
Marc Rochester í treyju Öster. Ljósmynd/Öster

Danski miðjumaðurinn Marc Rochester, sem nýverið gekk til liðs við knattspyrnulið Þórs frá Akureyri, kveðst fá betri laun hjá íslenska liðinu heldur en hann fékk hjá sænska B-deildar liðinu Öster undanfarin ár.

Þór leikur í B-deildinni hér á landi en Rochester lék með Öster sænsku B-deildinni undanfarin þrjú tímabil.

„Launalega séð er þetta virkilega fínt. Mér var tjáð að ég gæti fengið þarna góðan samning og að það sé hugsað vel um leikmennina, ég fékk það nýlega staðfest.

Fjárhagslega er þetta mjög gott, ég fékk mjög góðan samning. Þetta er aðeins öðruvísi en í Danmörku og Svíþjóð, án þess að ég vilji fara nánar út í það,“ sagði Rochester í samtali við dönsku fótboltasíðuna Bold.dk.

Hann hélt þó áfram:

„Ég er betur settur fjárhagslega en ég hef verið undanfarin ár, þar sem ég fæ íbúð og bíl til umráða. Það gerir manni auðveldara fyrir þegar maður er ekki með sérlega mikil útgjöld.“

Auknar væntingar fylgja laununum

Rochester kvaðst átta sig á því að góðum launum fylgja auknar væntingar.

„Góð laun eru auðvitað mikilvæg en væntingar félagsins í minn garð eru miklar. Félagið býst við miklu af leikmönnum sem koma erlendis frá.

Það er margt og mikið fram undan og ég þarf að leggja mitt af mörkum innan sem utan vallar. Það er virkilega jákvætt og ég hlakka til að hjálpa til með því sem ég hef fram að færa.“

Hann hlakkar til komandi tímabils með Þór og segist hafa átt góðar samræður við Þorlák Árnason þjálfara.

„Ég átti virkilega góðar samræður við þjálfarann minn og þetta er rétt félagið fyrir mig.

Ég fæ tækifæri til þess að gegna stóru hlutverki og hann kann virkilega að meta þá manneskju og leikmann sem ég er,“ sagði Rochester og bætti því við að aðstæðurnar hjá Þór hafi komið honum skemmtilega á óvart.

mbl.is