Tólf ára lék í deildabikarnum

Júlía Ruth Thasaphong og Momolaoluwa Adesanm í leik Grindavíkur og …
Júlía Ruth Thasaphong og Momolaoluwa Adesanm í leik Grindavíkur og Fjölnis síðasta sumar. Júlía leikur nú með Keflavík og Adesanm með Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í leik Grindavíkur og Fram í B-deild deildabikar kvenna í knattspyrnu, Lengjubikarnum, í gærkvöldi kom mikill fjöldi ungra leikmanna við sögu.

Samtals tóku á annan tug táninga þátt í leiknum og var til að mynda elsti leikmaður Grindavíkur aðeins 22 ára gamall, fyrirliðinn Viktoría Sól Sævarsdóttir.

Enginn leikmanna var þó jafn ungur og Natalía Nótt Gunnarsdóttir, sem kom inn á sem varamaður í liði Grindavíkur fimm mínútum fyrir leikslok.

Natalía Nótt er fædd árið 2010 og er því aðeins tólf ára gömul. Verður hún raunar ekki 13 ára fyrr en í október. 

Má því teljast ljóst að Natalía Nótt eigi framtíðina fyrir sér enda lék hún í gær gegn leikmönnum sem voru allt að 22 árum eldri en hún.

Var um fyrsta meistaraflokksleik Natalíu Nóttar að ræða.

Leiknum lauk með afar öruggum 6:0-sigri Grindavíkur, en bæði lið leika í næstefstu deild, 1. deildinni, á komandi tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert