Varnarmaður Víkings verður ekkert með í sumar

Kyle McLagan í leik með Víkingi gegn Leikni síðasta sumar.
Kyle McLagan í leik með Víkingi gegn Leikni síðasta sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kyle McLagan, varnarmaður Víkings í Bestu deild karla í knattspyrnu, verður ekkert með liðinu í sumar vegna meiðsla.

Víkingur sendi frá sér tilkynningu í dag en McLagan meiddist í leik gegn Val í undanúrslitum deildabikarsins á dögunum. Í ljós hefur komið að bæði fremra og aftara krossband er slitið og verður hann því líklega fjarverandi í ár hið minnsta.

Víkingur endaði í þriðja sæti Bestu deildarinnar í fyrra en félagið missti fyrirliða sinn, Júlíus Magnússon í atvinnumennsku í vetur. Nú er ljóst að McLagan verður ekkert með í sumar en hann spilaði 22 deildarleiki síðasta sumar. Það eru því stór skörð hoggin í liðið frá síðasta sumri.

mbl.is