Ímynda mér að ég sé að fara að spila

Aron Einar á blaðamannafundinum í kvöld, ásamt Arnari Þór Viðarssyni.
Aron Einar á blaðamannafundinum í kvöld, ásamt Arnari Þór Viðarssyni. mbl.is/Jóhann Ingi

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í fótbolta, sat fyrir svörum á blaðamannafundi á Bilino Polje-vellinum í Zenica í Bosníu í kvöld.

Ísland mætir Bosníu í undankeppni EM á morgun, en Aron verður ekki með að þessu sinni vegna leikbanns. Þrátt fyrir það var hann mættur til Bosníu, til að styðja liðsfélaga sína áfram.

„Ég er að reyna að ímynda mér að ég sé að fara að spila, bara til að fá tilfinninguna. Ég væri til í að vera á vellinum á morgun,“ sagði Aron.

Bilino Polje-völlurinn sem Ísland leikur á annað kvöld.
Bilino Polje-völlurinn sem Ísland leikur á annað kvöld. mbl.is/Jóhann Ingi

Aron fékk rautt spjald gegn Albaníu í Þjóðadeildinni í september og má því ekki spila annað kvöld. „Ég er kominn hingað til að hjálpa til við að undirbúa liðið eins vel og hægt er. Það er svekkjandi að vera ekki með.“

Fyrirliðinn sagði það í höndum liðsins að bæta stemningu í íslenska samfélaginu.

„Úrslitin skapa stemningu. Við þurfum að ná í úrslitin til að búa til stemningu í kringum okkur aftur. Það er undir okkur komið, hvernig við spilum og hvaða úrslit við náum í. Þetta er alfarið undir okkur komið hvernig framvindan á því verður," sagði Aron.

mbl.is