Tony Knapp er látinn

Tony Knapp.
Tony Knapp.

Englendingurinn Tony Knapp, fyrrverandi þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu og karlaliðs KR, er látinn, 86 ára að aldri. Hann féll friðsamlega frá í svefni í nótt.

Knapp lék sem atvinnumaður hjá Leicester City, Southampton og Coventry City í heimalandinu um langt skeið áður en hann sneri sér að þjálfun að loknum leikmannaferlinum.

Eftir að hafa verið spilandi þjálfari hjá Poole Town í utandeild Englands í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar söðlaði Knapp um og tók bæði við íslenska landsliðinu og KR árið 1974.

KR stýrði hann í tvö tímabil en íslenska landsliðinu stýrði hann árin 1974 til 1977. Sig­ur Íslands á firnasterku liði Aust­ur-Þýska­lands, 2:1, und­ir hans stjórn sum­arið 1975 hef­ur lengi verið í minn­um hafður.

Knapp tók svo aftur við landsliðinu og stýrði því frá 1984 til 1985. Í millitíðinni stýrði hann meðal annars Viking frá Stafangri í Noregi og er hans minnst sem goðsagnar hjá félaginu eftir að liðið vann tvöfalt, deild og bikar, undir hans stjórn árið 1979.

Stærstum hluta þjálfaraferilsins varði Knapp í Noregi enda settist hann þar að. Þjálfaði hann meðal annars Brann, Fredrikstad og Sandnes Ulf auk áðurnefnds Vikings.

Tony Knapp fyrrum landsliðsþjálfari Íslendinga.
Tony Knapp fyrrum landsliðsþjálfari Íslendinga. Reuters
mbl.is