Erfitt að segja að þetta sé ekki munurinn á liðunum

Jón Dagur Þorsteinsson í baráttunni í kvöld.
Jón Dagur Þorsteinsson í baráttunni í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Þetta var erfið byrjun og við náðum okkur ekki alveg eftir það,“ sagði Jón Dagur Þorsteinsson, kantmaður Íslands, í samtali við mbl.is eftir 0:3-tap fyrir Bosníu í Zenica í undankeppni EM í fótbolta í kvöld.

Bosnía komst í 2:0 í fyrri hálfleik og gekk svo frá leiknum með þriðja markinu í seinni hálfleiknum.

„Þetta var mjög þungt og við áttum ekki okkar besta leik. Þessi mörk höfðu of mikil áhrif á okkur og við náðum ekki að vinna okkur almennilega inn í leikinn eftir þau. Við fundum ekki lausnir á því hvað þeir voru þéttir til baka,“ sagði hann.

Jóni finnst bosníska liðið ekki vera þetta mikið betra en það íslenska. „Mér fannst þetta ekki vera 3:0-leikur og það er erfitt að segja að þetta sé ekki munurinn á liðunum, en þetta var munurinn á liðunum í kvöld. Við verðum að sýna það í seinni leiknum að við eigum fullan séns,“ sagði Jón.  

mbl.is