Gefumst ekki upp eftir fyrsta leik

Arnór svekktur eftir að Bosnía skoraði.
Arnór svekktur eftir að Bosnía skoraði. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Það gekk einhvern veginn ekkert upp hjá okkur,“ sagði Skagamaðurinn Arnór Sigurðsson í samtali við mbl.is eftir 0:3-tap Íslands gegn Bosníu í undankeppni EM í fótbolta í kvöld.

„Þeir skora í fyrri og fá stemninguna með sér. Þegar þeir komust í 1:0 áttum við okkar besta kafla í fyrri hálfleik og svo refsa þeir okkur með öðru marki og loka fyrir svæðin sem við viljum sækja í,“ sagði Arnór.

Íslenska liðið náði ekki að reyna mikið á markvörð Bosníu í leiknum og voru úrslitin verðskulduð.

„Það vantaði að skapa meira. Við erum með skapandi lið en við fundum ekki taktinn. Þeir voru skipulagðir og lokuðu réttu svæðunum. Þeir gerðu okkur erfitt fyrir en á sama tíma vorum við sjálfum okkur verstir,“ sagði Arnór.

Þrátt fyrir úrslitin sagði Arnór ljóst að íslenska liðið geti barist við Bosníu um annað sæti J-riðils og sæti á EM í Þýskalandi á næsta ári.

„Það er ekki spurning. Auðvitað vildum við sækja þrjú stig hér, það gekk ekki, þannig að við þurfum að setja hausinn upp. Það er hellingur eftir af þessu. Það getur mikið gerst og við getum ekki gefist upp eftir fyrsta leik,“ sagði Arnór.  

mbl.is