Missir af upphafi Íslandsmótsins

Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir með boltann í leik Aftureldingar gegn Þór/KA …
Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir með boltann í leik Aftureldingar gegn Þór/KA á síðasta tímabili. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Sóknarmaðurinn Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir hefur ekkert getað leikið með Val á undirbúningstímabilinu eftir að hafa gengið til liðs við Íslands- og bikarmeistarana í október síðastliðnum.

Guðrún Elísabet, sem er 23 ára, kom frá uppeldisfélaginu Aftureldingu, þar sem henni tókst aðeins að leika átta leiki Bestu deildinni vegna þrálátra meiðsla. Skoraði hún í þeim tvö mörk.

Í nóvember síðastliðnum gekkst hún undir aðgerð á ökkla en þrátt fyrir það náði Guðrún Elísabet sér ekki góðri.

Í samtali við Fótbolta.net kvaðst hún hafa þurft að gangast undir aðra aðgerð fyrir um þremur vikum síðan.

Tekur það Guðrúnu Elísabetu um átta vikur að jafna sig og er vonast til þess að hún geti hafið æfingar að nýju í lok apríl.

Afar líklegt verður því að teljast að Guðrún Elísabet missi af upphafi Íslandsmótsins, en Besta deild kvenna hefst þann 25. apríl með stórleik Vals og Breiðabliks á Hlíðarenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert