Þetta er mikið högg, ekki spurning

Alfreð Finnbogason í baráttunni við Ibrahim Sehic í kvöld.
Alfreð Finnbogason í baráttunni við Ibrahim Sehic í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Þýðir ekkert að gráta þetta tap,“ sagði Alfreð Finnbogason, landsliðsmaður í fótbolta, í samtali við mbl.is eftir tap gegn Bosníu, 0:3, í undankeppni EM í Zenica í kvöld. Íslenska liðið átti slæman dag og skapaði sér lítið af færum.

„Það var aðallega hvernig við vörðumst inn í teig. Það var alls ekki nógu gott en það er eitt af mörgum atriðum. Við vorum ekki nógu skarpir í teigunum tveimur, bæði í vörn og sókn, og það var munurinn í dag. 

Þeir voru ekkert að yfirspila okkur en þeir voru betri í teigunum og settu marga menn í teiginn þegar þeir voru í fyrirgjafastöðu og boltinn datt fyrir þá, það var sagan í fyrri hálfleik. 

Svo reyndum við aðeins að endurstilla okkur í seinni hálfleik og erum með fín tök á leiknum og þeir leyfðu okkur að vera mikið með boltann. Við náðum ekki að brjóta þá mikið niður, þeir voru með mjög djúpt og mjög þétt miðsvæði þannig að þeirra leikplan gekk vel upp.

Við vorum með ákveðið plan í gangi og kannski á endanum vorum við svolítið opnir á skyndisóknirnar og þannig skora þeir sín mörk og mörk breyta leikjum,“ sagði Alfreð um leikplönin.

Hann viðurkennir að það sé mikið högg að tapa fyrsta leik í nýrri undankeppni með þremur mörkum. 

„Þetta er mikið högg, ekki spurning. Þetta er langt frá því sem við ætluðum að gera. Það er ekki hægt að segja neitt annað við því. Þetta er gríðarlegt högg en það eru níu leikir eftir, fimm heimaleikir og það þýðir ekkert að gráta þetta tap lengur en í kvöld.“

Alfreð telur þessi úrslit hins vegar ekki vera munurinn á liðunum alla jafna. 

„Ég sá nú tölfræðina úr leiknum og það er alls ekki þannig. Þeir leyfðu okkur svolítið að vera með boltann og við erum mikið með boltann en náðum kannski ekki að skapa nógu mikið. Þannig að þessi tvö mörk í fyrri hálfleik breyttu leikmyndinni mikið og það kostaði okkur þennan sigur í dag,“ sagði Alfreð að lokum í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert